Fréttir

Breytingar við stjórnvöl Grundarheimilanna

Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.

Bakar 1.200 pönnukökur með kaffinu

Það er í nógu að snúast á Grundarheimilunum því auk hefðbundinna verka í eldhúsum heimilanna er verið að baka 800 pönnukökur sunnan heiða og 400 í Ási. Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður síðan boðið upp á pönnukökurnar með kaffinu á Grund, Ási og í Mörk. Takið eftir að hún Rakel lætur sig ekki muna um að baka á fimm pönnum í einu.

Bingó í Ásbyrgi

Bingó. Flestir hafa gaman af því að spila bingó og það er engin undantekning þegar heimilisfólkið í Ási er annrsvegar. Fyrir skömmu var bingó í Ásbyrgi og bæði börn og fullorðnir sem höfðu gaman af.

Grundarheimilin fengu 15 spjaldtölvur að gjöf

Þór Pálsson framkvæmdastjóri hjá Rafmennt kom færandi hendi á Grund með 15 spjaldtölvur sem voru gjöf til Grundarheimilanna. Rafmennt hefur gefið nemendum sem hefja grunnnám rafiðngreina spjaldtölvu til eigna. Á seinasta ári var ákveðið að breyta um styrk til grunnnámsnema. Þessi spjöld eru afgangur frá þessu verkefni og ákvað stjórn Rafmenntar að gefa þau til góðgerðarmála. Á myndinni er Þór Pálsson fyrir miðju og Sigríður Sigurðardóttir og Kjartan Örn Júlíusson sitt hvoru megin að taka við þessari rausnarlegu gjöf. Rafmennt er þakkað af heilum hug fyrir spjaldtölvurnar og hulstrin sem fylgdu. Þær eiga eftir að koma sér mjög vel á Grundarheimilunum þremur.

Rósir í tilefni konudags

Konudagurinn er á morgun, sunnudag og við tókum aðeins forskot á sæluna í gær og gáfum öllum heimiliskonum Grundarheimilanna rós. Á morgun verður svo boðið upp á konudags ostaköku og konfekt með kaffinu.

Lífshlaupið í Ási

Lífshlaupið er hafið í Ási…. Alla vikuna hefur starfsfólk Iðjuþjálfunar ásamt íþróttafræðingnum okkar farið um heimilið með léttar og skemmtilegar æfingar sem allir hafa haft gaman af að spreyta sig á.

Reynt að draga úr áhrifum verkfallsins á Grundarheimilin

Á morgun, miðvikudaginn 15. febrúar, hefst að öllu óbreyttu verkfall hjá vörubílstjórum og bílstjórum olíudreifingar. Það mun að öllum líkindum hafa einhver áhrif á starfsemi Grundarheimilanna og því miður má gera ráð fyrir skerðingu á þjónustu og starfsemi. Við höfum tryggt eldsneyti í nokkrar vikur til að tryggja flutning á matvælum og þvotti milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Ennfremur er birgðastaða nokkuð góð hjá okkur bæði hvað varðar mat og hjúkrunarvörur og sumir birgjar eru með rafmagnsbíla. Þá höfum við aðgang að nokkrum rafmagnsbílum og strætó hefur gefið út að þeir hafi eldsneytisbirgðir í tíu til fjórtán daga. Grundarheimilin eru aðili að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og hafa þau sótt um undanþágur fyrir starfsfólk aðildarfélaga að eldsneyti og lagt áherslu á að samgöngutæki fái að ganga. Binda samtökin vonir við að þær undanþágur verði veittar. Að sjálfsögðu munum við eftir bestu getu reyna að draga úr áhrifum verkfallsins á starfsemi Grundarheimilanna.

Heimilismenn bólusettir

Kæru aðstandendur Heilbrigðisyfirvöld mæla með Covid örvunarbólusetningu fyrir alla 60 ára og eldri og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma ef liðnir eru 4 mánuðir eða meira frá síðustu bólusetningu. Í janúar munum við bjóða þeim sem þar sem liðið er meira en 4 mánuðir frá síðustu bólsetningu upp á Covid örvunarbólusetningu. Við biðjum ykkur um að láta okkur vita eins fljótt og þið getið ef þið eruð alfarið á móti því að ykkar aðstandandi fái örvunarskammt. Best að láta viðkomandi deildarstjóra vita eða senda póst á sigridur@grund.is

Jólin kvödd með dansi

Að venju voru jólin kvödd með pompi og prakt á Ási á þrettándanum. Kristján og félagar héldu uppi fjörinu með harmonikkutónum, jólasveinarnir kíktu í heimsókn og eldhúsið bauð upp góðar veitingar.

Áramótamatseðill Grundarheimilanna 2022-2023