Fréttir

Heimilispósturinn - september 2021

Gaf Grund standlyftara

Thorvaldsensfélagið ákvað að styrkja starfsemi Grundar með standlyftara af tegundinni Sara Flex. Standlyftarinn mun koma sér ákaflega vel fyrir heimilisfólkið okkar, hann er rafknúinn, mjög öflugur og stöðugur og auðveldar starfsfólkinu störfin svo um munar. Thorvaldsensfélaginu er innilega þakkað fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Það var Kristín Ruth Fjólmundsdóttir formaður Thorvaldsensfélagsins sem afhenti Sigrúnu Faulk hjúkrunarframkvæmdastjóra Grundar standlyftarann.

Fiskidagurinn litli í Mörk

Fiskidagurinn litli var haldinn með pomp og prakt í Mörk. Boðið var upp á dýrindis hráefni frá Dalvík sem kokkarnir okkar matreiddu síðan. Fréttakona frá RÚV mætti og var með beina útsendingu frá viðburðinum og einnig mætti ljósmyndari Morgunblaðsins. Búið var að skreyta allt hátt og lágt með netum, netakúlum, teikningum og allskyns skrauti og tónleikar frá Fiskideginum mikla á Dalvík hljómuðu víða um hús.

Fiskidagurinn litli á Grund

Það ríkti tilhlökkun alla vikuna fyrir Fiskideginum litla sem haldinn var nú í fyrsta sinn á Grund. Heimilismenn og starfsfólk skreyttu með úrklippum, blöðrum, veifum, kúlum og baujum. Deildir hér á Grund fengu ný nöfn eins og Lýsuhólar, Síldargata, Rauðmagastræti og svo framvegis. Þá fengum við fiskmeti frá Dalvík, upptökur af tónleikum sem haldnir hafa verið á Fiskideginum mikla á Dalvík og bókina um þessa árlegu skemmtun á Dalvík sem við lásum uppúr.

Alltaf með eitthvað skemmtilegt á prjónunum

Hún Margrét sem býr hér á fjórðu hæðinni í Mörk prjónar gjarnan þegar hún kemur niður í vinnustofu heimilisins. Nýlega varð þessi skemmtilegi ormur til á prjónunum hjá henni.

Sól í garði Grundar

Það er um að gera að nýta góða veðrið og heimilismenn á A-2 hér á Grund ákváðu að bregða sér út í garð í gær og þá var auðvitað boðið upp á ís.

Heimilismenn fá örvunarskammt af bóluefni

Í næstu viku stendur til að gefa heimilismönnum á Grund svokallaðan örvunarskammt af bóluefni Pfizer eða bólusetningu nr. 3. Við höfum ekki fengið að vita nákvæma dagsetningu en það skýrist síðar í vikunni. Ef einhver heimilismaður vill EKKI bólusetningu, og aðstandendur þekkja best sitt fólk, þá endilega að láta mig vita. Annars munu okkar læknar fara yfir það hjá hverjum og einum. Sigríður Sigurðardóttir, hjúkrunarstjóri.

Örvunarskammtur af bóluefni

Í næstu viku stendur til að gefa heimilismönnum í Mörk svokallaðan örvunarskammt af bóluefni Pfizer eða bólusetningu nr. 3. Við höfum ekki fengið að vita nákvæma dagsetningu en það skýrist síðar í vikunni. Ef einhver heimilismaður vill EKKI bólusetningu, og aðstandendur þekkja best sitt fólk, þá endilega að láta mig vita. Annars munu okkar læknar fara yfir það hjá hverjum og einum. Sigríður Sigurðardóttir hjúkrunarstjóri.

Flutti Völuspá fyrir heimilisfólk

Við í Ási fengum Jón Gnarr til okkar um daginn og hann flutti fyrir okkur Völuspá. Fólkið okkar varð alveg heillað og margir lyngdu aftur augunum og við sáum varir bærast og það var eins og folk kynni þetta og væri að fara með Völuspána með honum. Það skapaðist mikil umræða um þetta dagana á eftir "Völuspá hefur alltaf verið mér hugleikin frá því að ég var barn" sagði Jón Grann. "Ég hef undanfarið lagt stund á MFA nám í sviðslistafræðum við Listaháskóla íslands og ákvað að gera flutning á völuspá að lokaverkefni. Ég sem lagið sjálfur en hef notið leiðsagnar Hilmars Arnar Agnarssonar organista og stórmúsíkants. Auk hans koma að verkinu Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði og Páll á Húsafelli. Ég vel konungsbókarútgáfu Völuspár og hef notið leiðsagnar Gísla Sigurðssonar prófessors hjá Árnastofnun í meðferð og túlkun textans. Boðskapur völuspár er kyngimagnaður og á jafn vel við í dag og þegar hún var samin. " Verkið verður formlega flutt í Þjóðminjasafni Íslands 26 ágúst og þá bætast söngkonur og lúðrablásarar í hópinn.

Gleðidagur í Ási

Komið þið sæl. Það ríkir gleði hjá okkur í Ási í dag því allar niðurstöður sýna voru neikvæðar sem þýðir að enginn heimilismaður reyndist smitaður af Covid 19. Heimsóknir eru leyfðar en minnum á að það komi mest tveir í heimsókn til heimilismanns í einu, farið sé beint inn á herbergi og ekki stoppað í sameiginlegum rýmum. Allir gestir þurfa að vera með maska og spritta sig þegar þeir koma í hús. Enn er ekki leyfilegt að koma með börn og ungt fólk í heimsókn.