Vikupistlar forstjóra

Tilbreyting

Það er svo gaman að fylgjast með samstarfsfólki mínu hvað það er uppátækjasamt. Á facebook síðum heimilanna má sjá að nýlega hefur verið allskonar skemmtilegt uppbrot frá daglegu lífi. Íspinnadreifing, svalasamkeppni, gönguferðir, söngstundir útivið, spariboð og ég veit ekki hvað. Sólin sem hefur verið síðustu daga hjálpar heldur betur til við að lyfta andanum. Það er skemmtilegt þegar við leyfum okkur að hugsa aðeins út fyrir boxið og hafa gaman í vinnunni á heimilum okkar heimilismanna. Þegar við njótum okkar við að gera skemmtilega hluti þá gleður það alla í kring. Höldum áfram að vera óhrædd við að fá nýjar hugmyndir og gera „spondant“ hluti, inni og úti við. Það er gaman að gera öðruvísi hluti, við getum öll komið með hugmyndir og sumar verða að veruleika og sumar breytast aðeins í framkvæmd eftir því sem aðstæður leyfa. Aðeins brot af því sem að gerist hjá okkur á hverjum degi kemur í facebook fréttirnar. Ég veit að það er heldur betur margt fleira brallað innan og utanhúss sem veitir tilbreytingu í tilveruna. Ég nota tækifærið og hvet aðstandendur til að vera með okkur í þessu ferðalagi, koma með hugmyndir og vera með í að koma hugmyndum í framkvæmd. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna

Að hafa hlutverk

Það skiptir okkur öll máli að hafa hlutverk í lífinu og á ólíkum æviskeiðum þá breytast hlutverkin okkar. Við höfum hlutverk í vinnu, í heimilishaldi, í uppeldi o.m.fl. Með hlutverki sem okkur er treyst fyrir og við finnum að skiptir máli höfum við tilgang. Það eru mörg skref og flókin sem að þarf að taka þegar að við skipum um gír í lífinu og þurfum að finna okkur nýtt hlutverk eða verkefni þegar einu hlutverki eða verkefni lýkur. Dæmi um þetta er þegar að barnauppeldi lýkur og börnin fara að heiman, þegar við hættum á vinnumarkaði o.s.frv. Að fara á hjúkrunarheimili getur reynst mörgum erfitt sem að áður höfðu margvísleg hlutverk í sínu heimilislífi. Við sem störfum á þessum heimilum verðum að gæta þess að fólkið okkar upplifi sig ekki aðeins sem þiggjendur þjónustu heldur hafi ákveðin hlutverk. Það er okkar að koma auga á möguleika til þess að skapa þessi hlutverk. Það vill enginn upplifa að hann sé óþarfur eða byrði. Dæmi um hlutverk sem við getum fundið á heimilunum okkar eru að leggja á borð, að taka af borðum, setja í eða taka úr uppþvotta/þvottavél, að brjóta saman þvott/tuskur, að brjóta saman servíettur, vökva blóm, raða einhverjum vörum í hillur og ótal margt fleira. Fólkið okkar er með mismunandi færni og hefur mismikla getu til að sinna þessum verkum komin á nýtt heimili, en útkoman og hvernig það er gert ætti að vera aukaatriði. Tuskurnar mega vera allskonar brotnar saman, servíetturnar mega vera allskonar, við erum heimili og allt má vera allskonar. Hjálpumst að við að finna verkefni við hæfi, þau þurfa ekki að vera stór eða flókin en geta skipt þann sem að fær verkefnið gríðarlega miklu máli. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna

Takk Framkvæmdasjóður aldraðra

Í vetur sóttu Grundarheimilin um styrki frá framkvæmdasjóði aldraðra en það er sjóður sem er fjármagnaður af skattgreiðendum sérstaklega (kemur fram á skattframtali eins og útvarpsgjaldið). Sjóðurinn hefur það hlutverk að byggja upp öldrunarþjónustu á Íslandi. Sótt var um styrk fyrir 16 verkefnum sem hljóðuðu upp á 200 milljóna framlag frá sjóðnum. Samþykkt voru 14 verkefni að fullu, að upphæð 195 milljónir, einni umsókn var hafnað og ein var samþykkt að hluta. Heilbrigðisráðherra veitir styrki að fenginni tillögu frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Við (á Grundarheimilunum )erum gífurlega þakklát fyrir stuðninginn sem að við fáum með þessum hætti til að byggja upp húsnæði okkar og innviði þess til að bæta búsetu og starfsskilyrði þeirra sem að hjá okkur eru búa eða starfa (hverju sinni.) Ég þakka heilbrigðisráðherra og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra kærlega fyrir þetta framlag. Ljóst er að mikið þarf að vinna í húsnæði Grundar og Áss sérstaklega á næstu árum. Í Mörk er staðan betri húsnæðislega séð, enda eru þar allt einbýli með sér baðherbergi. Samþykkt var núna að breyta deild A3 á Grund að mestu leyti á sama hátt og gert hefur verið á hæðinni fyrir neðan. Einnig var samþykkt klæðning á hjúkrunarheimilinu í Hveragerði, endurnýjun á brunakerfum, tæki til sjúkraþjálfunar á öllum heimilum og ýmislegt fleira stórt og smátt. Viðhaldi á þessum gömlu húsum okkar hefur alla tíð verið almennt vel sinnt og þvi búum við ágætlega að því þegar að kemur að endurnýjun. Haldið er áfram að vinna í þessum breytingum en til þess að geta gert þetta hraðar þá þurfum við klárlega að fá greidda húsaleigu fyrir það húnsæði sem að við notum í þjónustu við okkar heimilisfólk. Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundar, hefur ritað marga pistla um það mál og ætla ég ekki að fara út í smáatriði hér en ítreka mikilvægið. Grundarheimilin saman standa af félögum sem að eru óhagnaðardrifin og allt fé heimilanna fer í starfsemi þeirra. Það er því ljóst að húsaleiga til okkar heimila færi ekki í neitt annað en í uppbyggingu og endurbætur hjá okkur. Sem er eitthvað sem allir sjá að er löngu tímabær og þörf ráðstöfun. Ég treysti því og trúi að stjórnvöld séu að vinna að því hörðum höndum að leysa þessi mál þannig að við getum haldið áfram uppbyggingunni og nauðsynlegum endurbótum og skipuleggja það til framtíðar, vitandi af tryggum greiðslum. Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna p.s. mun halda pólitík í lágmarki í mínum skrifum, en komst ekki hjá því í þetta skiptið að koma aðeins inn á hana. 😊

Kjarasamningar og sautjándi júní

Nýlega var gengið frá kjarasamningum allra starfsmanna Grundarheimilanna en Grundarheimilin eru aðilar að SFV (Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu) sem sér um að semja fyrir okkar hönd. Samningarnir eru í einhverjum tilfellum komnir til framkvæmda en aðrir eru í atkvæðagreiðslu. Verði þeir samþykkir verður greitt eftir þeim næstu mánaðarmót, afturvirkt frá 1. apríl. Það er ákaflega ánægjulegt að þetta sé klárt og gott að þessari óvissu sé eytt og mikilvægum kjarabótum komið til minna samstarfsmanna. Samningarnir eru stuttir og því stutt í að taka þurfi upp þráðinn og semja að nýju. Eitt af þvi sem við fáum mestar ábendingar um í starfsánægjukönnunum sem að við framkvæmum með reglulegu millibili er að laun séu of lág miðað við verkefni og ábyrgð. Í mörgum tilfellum er hægt að taka undir það að laun þyrftu að vera hærri til að standast samanburð við önnur störf í þjóðfélaginu og umönnunarstörf hafa lengi verið vanmetin. Á vettvangi stjórnvalda og heildarsamtaka launþega er verkefni sem að snýr að jöfnun launa milli markaða, einmitt með það í huga að lyfta launum í umönnunarstörfum (heilbrigðisþjónusta og kennsla). Vona ég að hjúkrunarheimilin verði höfð í huga í þeirri vinnu og allar okkar stéttir. Sautjándi júní er um helgina og óska ég öllum heimilismönnum, starfsmönnum og aðstandendum (heimilis- og starfsmanna) til hamingju með daginn. Á Grundarheimilunum reynum við að gera deginum hátt undir höfði með tilbreytingu í mat og dúkuðum borðum. Við berum virðingu fyrir því að sú kynslóð sem við erum að þjónusta núna stendur nær tímamótunum árið 1944 en við sem störfum á heimilunum. Þessi dagur skiptir heimilisfólk máli. Við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og berum virðingu fyrir hefðunum og höldum daginn hátíðlegan. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna p.s. hef fengið einhverjar ábendingar um að póstarnir séu of langir, hef því einn stuttan í dag og mun reyna að stytta þá sem að á eftir koma. Þó að ég lofi ekki að þeir verði eins stuttir og þessi.

Kjarasamningar og sautjándi júní

Nýlega var lokið við að ganga frá kjarasamningum allra starfsmanna Grundarheimilanna en Grundarheimilin eru aðilar að SFV (Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu) sem sér um að semja fyrir okkar hönd. Samningarnir eru í einhverjum tilfellum komnir til framkvæmda en aðrir eru í atkvæðagreiðslu og verði þeir samþykkir verður greitt eftir þeim næstu mánaðarmót, afturvirkt frá 1. apríl. Það er ákaflega ánægjulegt að þetta sé klárt og gott að þessari óvissu sé eytt og mikilvægum kjarabótum komið til minna samstarfsmanna. Samningarnir eru stuttir og því stutt í að taka þurfi upp þráðinn og semja að nýju. Eitt af þvi sem við fáum mestar ábendingar um í starfsánægjukönnunum sem að við framkvæmum með reglulegu millibili er að laun séu of lág miðað við verkefni og ábyrgð. Í mörgum tilfellum er hægt að taka undir það að laun þyrftu að vera hærri til að standast samanburð við önnur störf í þjóðfélaginu og umönnunarstörf hafa lengi verið vanmetin. Á vettvangi stjórnvalda og heildarsamtaka launþega er verkefni sem að snýr að jöfnun launa milli markaða, einmitt með það í huga að lyfta launum í umönnunarstörfum (heilbrigðisþjónusta og kennsla). Vona ég að hjúkrunarheimilin verði höfð í huga í þeirri vinnu og allar okkar stéttir. Sautjándi júní er um helgina og óska ég öllum heimilismönnum, starfsmönnum og aðstandendum (heimilis- og starfsmanna) til hamingju með daginn. Á Grundarheimilunum reynum við að gera deginum hátt undir höfði með tilbreytingu í mat og dúkuðum borðum. Við berum virðingu fyrir því að sú kynslóð sem við erum að þjónusta núna stendur nær tímamótunum árið 1944 en við sem störfum á heimilunum. Þessi dagur skiptir heimilisfólk enn meira máli en mörg okkar sem hér störfum. Við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og berum virðingu fyrir hefðunum og höldum daginn hátíðlegan. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna p.s. hef fengið einhverjar ábendingar um að póstarnir séu of langir, hef því einn stuttan í dag og mun reyna að stytta þá sem að á eftir koma. Þó að ég lofi ekki að þeir verði eins stuttir og þessi. 😊

Aðstandendur

Mikilvægi aðstandenda fyrir heimilismenn er ótvírætt. Það tekur tíma að fóta sig í nýju hlutverki eftir komuna á hjúkrunarheimilið. Hlutverk þeirra breytist oft talsvert og umönnunarbyrði er að stórum hluta létt af aðstandendum sem oft á tíðum hefur verið mjög þung í langan tíma. Þó starfsfólkið sinni nú athöfnum daglegs lífs að miklu leyti þá er samt mikilvægt fyrir aðstandendur að halda áfram að sinna félagslegum þörfum heimilismanns að einhvejru leyti, en hafa meira val um að sinna skemmtilegri hlutum en beinni umönnun. Oft eru aðstandendur óöuggir um hvað má og hvað má ekki á hjúkrunarheimilinu. Það er gott að hafa hugfast að við sem að vinnum á heimilunum erum að vinna á heimilum fólksins, en það býr ekki á okkar vinnustað. Leitast er við að hafa andrúmsloftið heimilislegt. Ein algeng spurning við komuna á hjúkrunarheimili er hvenær er heimsóknartími? Svar við þvi er einfaldlega þegar og eins lengi eða stutt og heimilismaðurinn sjálfur kýs að hafa heimsókn. Setjist niður með heimilismanni og allt í lagi að það sé á matmálstímum. Það veitir tilbreytingu, spjallið yfir matnum, aðstoðið ef þarf og þið viljið. Það er upplagt að fara í gönguferðir, innandyra og utan, kíkja í bíltúr, á kaffihús, í heimsóknir út í bæ og hvað sem ykkur dettur í hug. (muna bara að láta starfsfólk vita af því). Hugmyndirnar eru margskonar, hægt er að lesa upp, spila tónlist eða á hljóðfæri, spila, spjalla, skoða myndir, baka vöffur, dansa og svo framvegis. Það er tilvalið að að koma einn daginn með ísveislu til að njóta saman, eða uppáhalds mat fólksins ykkar og hægt að biðja starfsfólk um skálar og diska eftir þörfum og svo hjálpast að við frágang, heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk. Um að gera að bjóða öðrum heimilismönnum líka, það er bara kærkomin tilbreyting fyrir alla. Það er gefandi fyrir heimilisfólk að fá að bjóða öðrum með sér. Við sem að vinnum á hjúkrunarheimilunum reynum eftir fremsta megni að koma með tilbreytingu í daglegt líf heimilisfólksins og margir starfsmenn hafa frumkvæði að allskonar skemmtilegum „uppákomum“. Sjúkra- og iðjuþjálfun býður líka upp á allskyns þjónustu og virkni, sem sumir vilja taka þátt í en aðrir alls ekki. Okkar hlutverk er að hvetja til slíkrar þáttöku en við neyðum aldrei neinn sem að gefur skýrt til kynna að hann vilji ekki. Heimilin standa ykkur opin. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarssoon forstjóri Grundarheimilanna Ps: Svæði sem að gaman er að ganga um og heimsækja á okkar heimilum: Grund: á 3. hæð í miðjunni er falleg stofa og þar er gaman að setjast niður og spjalla. Þar er einnig barnahorn og oft mikið næði. Í starfsmannaborðsal á 1. hæð er velkomið að setjast. Þar er kaffivél sem að stendur öllum til boða að nýta. Hægt er að ganga innandyra yfir tengiganginn á 2. hæð, eða ganga utandyra í porti milli húsa. Ég veit að Grund virkar flókin fyrir þá sem að ganga ekki mikið um þar og erfitt að rata. Endilega spyrjið til vegar, að villast smá getur líka bara verið smá spennandi og hluti af ævintýraferð innanhúss Ás: Á hjúkrunarheimilinu í kjallaranum er setustofa við hliðina á lyftunni. Einnig er bjart og notalegt að setjast í sófa sem að eru inni í kapellunni, en hún á að standa opin. Kapellann er innst á ganginum í kjallaranum. Í Ási er setustofa og salur í Ásbúð og á Ásbyrgissvæðinu setustofa og salur í Ásbyrgi. Það er gott og gaman að skipta um umhverfi og fyrir þá sem að eru í útideildum að kíkja í kjallarann á hjúkruanrheimilinu eða á milli staða. Mörk: Aðstaðan á herbergjum heimilisfólks er auðvitað ein sú besa sem að við höfum og þörf á að útbúa rými til heimsókna annarsstaðar því minni en á hinum heimilunum. Það er þó mikilvægt fyrir heimilismenn að breyta til og fara út af herberginu. Í Mörk erum við kapellu með sófa innaf stóra matsalnum á 1.hæð. Við höfum svo auðvitað frábært kaffihús sem að er um að gera að kíkja á.

Sumarbyrjun ??

Nú styttist í sumarið, þó að veðurfarslega sé ekki að sjá það. Við vonum það besta og reiknum með að við fáum betra sumar eftir rysjótt vorið. Veðrið hefur sett strik í reikninginn hjá okkur á Grundarheimilunum t.d. hefur púttvöllurinn sem að við erum með í Mörkinni látið verulega á sjá. Við eigum von á því að geta opnað hann fljótlega, þó að hann verði ekki orðinn iðagrænn. Við leitum ráðlegginga til færustu golfvallarsérfræðinga í þeim efnum og fylgjum þeirra ráðum. Víða hafa nýþvegnir gluggar i Mörk og Ási líka fengið að kenna á rokinu og erfitt að sjá út. Það sem að fylgir vorinu og upphafi sumars hjá okkur er svo fjöldinn allur af sumarstarfsfólki sem að kemur til starfa til að hleypa okkur sem að venjulega stöndum vaktina í kærkomið frí. Hópurinn er að venju stór og fjölbreyttur og hef ég notað tækifærið til þess að hitta nýliðana okkar sem að þegar eru komnir til starfa í nýliðafræðslu sem að er byrjuð hjá okkur á öllum heimilum. Næsti hópur byrjar svo í byrjun júní í fræðslunni, en fræðslan er keyrð í tveimur hópum þar sem að starfsmenn byrja á misjöfnum tímum. Við þetta tilefni hef ég notað tækifærið og kynnt þeim eitt það allra mikilvægasta sem að við verðum að hafa í huga við þjónustu þeirra sem að þurfa á okkar þjónustu að halda. Að mínu mati er það eitt af gildum Grundarheimilanna, virðing. Öll viljum við njóta virðingar og mikilvægt að við gætum þess í störfum okkur að gleyma því ekki í samskiptum við aðra. Við berum virðingu fyrir samstarfsfólki, heimilisfólki, aðstandendum o.fl. og ætlumst til að fá virðingu til baka. Við þurfum ekki að vera sammála til að sýna skoðunum og lífsýn annarra virðingu. Alltaf er gott að hafa hugfast hvað maður sjálfur myndi vilja þegar að einhver gengur mjög nálægt manni í að sinna persónulegum þörfum. Við þurfum líka að muna það að spyrja heimilisfólk hvað það vill og sýna skoðunum þeirra og vali viðringu með því að nálgast þau eins og við sjálf myndum vilja. Viljum við ekki vera spurð um hvað við viljum borða í morgunmat? Viljum við láta tala um okkur eða við okkur? Margt smátt sem að við getum gert sem að skiptir gríðarlegu máli. Ég býð alla okkar frábæru nýliða velkomna til starfa og hvet þá sem að fyrir eru til að taka vel á móti þeim og aðstoða við fyrstu skrefin í nýju starfi. Það ferli er lærdóms ríkt fyrir okkur öll. Þessi vikupóstur er minn fyrsti sem nýr forstjóri Grundarheimilanna. Ég nota tækifærið til að þakka stjórn Grundarheimilanna traustið sem að mér er sýnt með því að fela mér þetta starf. Ég hef notið fyrstu dagana í starfinu og hlakka til áframhaldandi samstarfs hér eftr eins og síðustu 12 ár þar á undan í öðru hlutverki. Ég auglýsi sömuleiðis eftir góðum hugmyndum að umfjöllunar efni, af nógu er að taka og flott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna

Stjórnarformanni þakkað

Á stjórnarfundi Grundarheimilanna fyrir viku lét Jóhann J. Ólafsson stjórnarformaður af embætti sínu. Jóhann hefur gegnt embætti stjórnarformanns í tæp tuttugu ár og staðið sig mjög vel. Jóhann hefur alla tíð lagt mikla áherslu á stefnumótun og mikilvægi þess að horfa fram í tímann, bæði langt og stutt. Hann stóð fyrir og mótaði okkar árlegu, og stundum tvisvar á ári, stefnumótunarfundi þar sem litið er til framtíðar, spáð og spekúlerað, ásamt því að líta í baksýnisspegilinn til að læra af því sem áður var gert. Nýjar hugmyndir, hugsa út fyrir boxið og horfa á hlutina út frá viðskiptahagsmunum hafa einnig verið góðu kostir Jóhanns í stjórn Grundar sem hafa oft á tíðum komið heimilunum mjög vel. Við Jóhann höfum ekki alltaf verið sammála, sem betur fer. Mismunandi skoðanir gefa kost á rökræðum, velta fyrir sér kostum og göllum hvers máls fyrir sig og við höfum ávallt komist að sameiginlegri niðurstöðu, jafnvel niðurstöðu sem hvorugur okkar sá við upphaf rökræðna. Með þannig mönnum finnst mér gott að vinna. Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég Jóhanni kærlega fyrir afar gott og farsælt samstarf og óska honum velfarnaðar. Allt hefur sinn tíma. Þessi pistill er sá síðasti sem ég sendi ykkur sem forstjóri Grundarheimilanna og þakka ég ykkur kærlega fyrir samfylgdina, lesturinn og mörg áhugaverð svör í gegnum árin. Ég hef lært af ykkur og fengið góðar og uppbyggilegar athugasemdir í gegnum tíðina. Kveðja og góða framtíð, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Nýr forstjóri Grundarheimilanna

Í morgun samþykkti stjórn Grundarheimilanna að ráða Karl Óttar Einarsson sem nýjan forstjóra Grundarheimilanna frá og með 1. maí næstkomandi. Karl Óttar hefur unnið hjá Grundarheimilunum frá júní 2011. Fyrst sem bókari til ársins 2016, síðan fjármálastjóri og frá árinu 2019 hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra rekstrar og fjármála. Karl Óttar er menntaður viðskiptafræðingur auk þess að vera með meistargráðu í reikningshaldi og endurskoðun. Hann er kvæntur Halldóru M. Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Á sama fundi var samþykkt að ráða undirritaðan í 50% starf stjórnarformanns Grundarheimilanna og tekur sú ráðning einnig gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Ég er þar af leiðandi langt í frá hættur störfum fyrir Grundarheimilin enda þótt ég færi mig úr forstjórastólnum. Í þessu nýja hlutverki fæ ég kærkomið tækifæri til þess að einbeita mér að framtíðinni, skoða stór uppbyggingarverkefni og þróa þau í samstarfi við einkaaðila sem opinbera eftir því sem við á. Ég mun einnig sinna samskiptum við ríkisvaldið, ráðherra og ráðuneyti, þingmenn, borgar- og bæjarfulltrúa, Sjúkratryggingar Íslands og fleiri. Þá mun ég taka þátt í nefndarstörfum á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og opinberra aðila, til dæmis um húsnæðismál hjúkrunarheimila. Ég hef starfað hjá Grundarheimilunum í tæplega 33 ár, frá mánudeginum 17. september 1990. Þetta hefur verið feikn skemmtilegur og á oft á tíðum annasamur tími. Bygging hjúkrunarheimilis í Ási í Hveragerði, stofnun og bygging hins tæknivædda þvottahúss í Ási sem þjónustar öll Grundarheimilin og uppbygging metnaðarfulla eldhússins okkar á sömu slóðum, sem m.a. sendir daglega heitar máltíðir og annan kost til Reykjavíkur, er á meðal þeirra verkefna sem við getum verið stolt af. Kaup okkar og bygging á íbúðum í Mörkinni auk reksturs á hjúkrunarheimili á sama stað stendur einnig upp úr. Fjölmörg önnur góð og brýn verkefni koma upp í hugann en of langt mál er að telja þau upp hér. Auðvitað var svo hundrað ára afmælið í fyrra merkur áfangi sem aldrei mun gleymast. Ég hef kynnst og unnið með mörgum skemmtilegum, duglegum og kraftmiklum einstaklingum. Til að mismuna ekki eða gleyma einhverjum verður enginn nafngreindur hér en ég er afar þakklátur öllum þeim fjölda samstarfsmanna sem hafa farið með mér í gegnum ólgusjó síðustu þriggja áratuga. Þar hafa margir mjög góðir samherjar lagt hönd á plóg með afbragðs fagmennsku og endalausa þrautseigju í farteskinu. Ég hef verið að velta þessum hlutverkaskiptum mínum fyrir mér í allnokkur ár og ekki síst eftir að ég festi sjónar á þeim möguleika fyrir margt löngu að Karl Óttar hefði allt það til að bera sem gæti gert hann að góðum forstjóra Grundarheimilanna. Ég sá það reyndar býsna fljótt og ráðning hans á sér því langan aðdraganda. Til viðbótar við störf stjórnarformanns hyggst ég taka að mér einhver allt önnur störf innan Grundarheimilanna en ég hef sinnt hingað til. Þeim mun ég sinna í frítíma mínum frá stjórnarformennskunni og til þess að það sé alveg á hreinu mun ég þiggja laun fyrir þau störf samkvæmt þeim launatöxtum sem í gildi eru fyrir þá vinnu. Með lækkuðu starfshlutfalli gefst mér svo kærkominn tími til að sinna ýmsu öðru en vinnunni. Einhverjir í svipuðum sporum og mínum myndu nota tækifærið og nefna samveru með fjölskyldu, en ég ætla að vera heiðarlegur. Fleiri og kannski lengri skotveiðidagar koma fyrst upp í hugann. Ef til vill einhverjir auka golfhringir. Lestur góðra bóka. Langir göngutúrar. En þess utan eyði ég talsverðum tíma, finnst mér alla vega, með fjölskyldunni og þá sérstaklega Öldu eiginkonu minni og á því verður engin breyting. Að minnsta kosti ekki ef ég fæ að ráða. Tel reyndar líklegt að þeim góðu stundum með Öldu og stórum hópi barna, barnabarna og tengdabarna eigi eftir að fjölga frekar en hitt eftir þessa breytingu. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, verðandi stjórnarformaður Grundarheimilanna

Enn af snjallsímum

Á fjölmennum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var fyrr í þessum mánuði kom skýrt fram, bæði hjá heimilismönnum, aðstandendum og all mörgum starfsmönnum að snjallsímanotkun starfsmanna á vinnutíma væri of mikil. Alltof mikil á köflum. Og að við yrðum að bregðast við þessu með einhverjum skýrum hætti. Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Margar hugmyndir komu fram. Banna alveg notkun þessara tækja, takmarka notkun þeirra með einhverjum hætti eða reyna að stýra notkun þeirra þannig að vel sé. Allt tiltölulega erfið markmið að mínu mati og eins og er þá sé ég enga hagstæða lausn. Í málum sem þessum er oft gott að leita eftir sjónarmiðum annarra. Hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar og nota það sem gengur vel. Með pistli þessum óska ég eftir hugmyndum frá ykkur hvernig skynsamlegast væri að leysa þessa ofnotkun á snjallsímum í vinnutíma. Veit vel að það er mitt hlutverk og annarra góðra starfsmanna Grundarheimilanna að finna lausnir sem þessar en ég spyr engu að síður. Ef maður spyr ekki, þá fær maður ekki svör og ef til vill leynist góð lausn einhvers úti hjá ykkur. Efast reyndar ekki um það, þetta vandamál er víðast hvar annars staðar. Verstu hugmyndirnar/tillögurnar eru þær sem koma aldrei fram. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna