Tvískinnungur ríkisins í húsaleigumálum

Ríkið er skrítin skepna.  Hagar sér með furðulegum og mótsagnakenndum hætti í sumum málum, til dæmis húsaleigumálum.  Ríkið á eðli máls samkvæmt margar byggingar.  Sumar hverjar notar ríkið undir eigin starfsemi, aðrar eru leigðar út til reksturs þar á meðal hjúkrunarheimila.  Ein af þeim fasteignum sem eru í eigu ríkisins og umsjá Ríkiseigna er hjúkrunarheimilið á Höfn í Hornafirði, Skjólgarður.  Skv. gögnum sem ég hef undir höndum er Skjólgarður að greiða rúmlega 1,5 milljónir á mánuði í húsaleigu til ríkisins/Ríkiseigna af því húsnæði sem hjúkrunarheimilið er rekið í, eða rúmlega 18 milljónir á ári.  Þessir peningar eru greiddir af daggjöldum sem Skjólgarður fær skv. samningi sínum við Sjúkratryggingar Íslands en í 11. gr þess samnings segir meðal annars að svo kölluðu húsnæðisgjaldi sé ekki ætlað að standa undir stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum.  Þá segir í 14. gr sama samnings að það sé óheimilt að ráðstafa fé í annað en er tilgreint í samningnum og það kemur ekkert fram í honum að það megi greiða húsaleigu af þessum aurum, eins og reyndar er gefið einnig í skyn í 11. gr.

Það sem er að gerast hjá Skjólgarði er að ríkið er að neyða þau til að brjóta samninginn með því að innheimta þessa húsaleigu með þessum hætti auk þess sem að ríkið er að skerða þjónustu til þeirra heimilismanna sem þar búa um rúmlega 18 milljónir á ári þar sem það er alls ekki gert ráð fyrir slíkum útgjöldum í rekstrarsamningnum.  Það væri hægt að gera ýmislegt fyrir heimilismenn Skjólgarðs fyrir þessar 18 milljónir sem ríkið er að innheimta í húsaleigu.  Og ætli Sjúkratryggingar Íslands viti af því að Skjólgarði er gert að brjóta samninginn við SÍ með þessum hætti?  Að boðvaldi ríkisins?

Á sama tíma hafa Grundarheimilin Grund og Ás, ásamt Hrafnistu, þurft að höfða mál á hendur ríkinu til að reyna að fá greidda sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem heimilin útvega ríkinu til að veita öldrunarþjónustu.  Málið var dæmt okkur í óhag í héraði og Landsrétti en Hæstiréttur tekur það fyrir í byrjun næsta árs.

Framangreint lýsir talsverðum tvískinnungi af hálfu ríkisins í húsaleigumálum.  Rukka aðra fyrir það húsnæði sem ríkið útvegar í hjúkrunarheimilisþjónustu á sama tíma og það neitar að greiða húsaleigu til annarra sem útvega ríkinu húsnæði í hjúkrunarheimilisþjónustu.  Vægast sagt furðulegt í alla staði.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna