Þetta hefur alltaf verið svona

 Við festumst oft í viðjum vanans og einblínum stundum um of á hvernig við höfum alltaf gert hlutina. Við göngum inn í það sem okkur er kennt og höldum því áfram, verðum vélræn í leik og starfi og gerum eins og okkur er sagt. Dæmi um þetta er sagan af konunni sem eldaði alltaf kjötsúpu í tveimur pottum, af því að mamma gerði það alltaf þannig. Þegar mamman var spurð hvers vegna hún eldaði alltaf kjötsúpuna í tveimur pottum var svarið ósköp einfalt, hún átti bara aldrei nógu stóran pott. Við könnumst örugglega við þetta öll, að einhvern tíma hafi runnið upp fyrir okkur að við séum kannski að gera einhverja hluti undarlega „af því bara“. Að íhuguðu máli sjáum við ef til vill einfaldari leiðir til að ná sama markmiði, nú eða jafnvel er eitthvað sem að við gerum bara algjör óþarfi.
Mér finnst svo frábært þegar að ég heyri pælingar í þessa veru þ.e. af hverju? Það fylgir því líka vellíðan að komast að niðurstöðu um að gera eitthvað öðruvísi og getur létt af okkur einhverjum kvöðum. Við þurfum á sama tíma að bera virðingu fyrir ákveðnum hefðum og venjum hvar sem við komum, þetta er því oft fín lína.
Við skulum samt reyna að halda í gagnrýna hugsun og nýta tækifærið sem t.d. kemur með nýju fólki sem spyr um skrýtna hluti, að okkur finnst, og velta fyrir okkur hvort að það geti verið eitthvað til í því.
Þegar spurt er spurninga er frábært að fá tækifæri til að útskýra hvers vegna hlutir eru með ákveðnum hætti. Allt samtal um hvernig og hvers vegna við gerum hlutina getur líka verið svo skemmtilegt og oft koma frábærar hugmyndir að breytingum þegar að leggjumst á eitt og kannski einföldum okkur vinnuna.

Kveðja og góða helgi

Karl Óttar Einarssoon
forstjóri Grundarheimilanna