Síðbúin en kærkomin svör

Nýlega fengum við á Grundarheimilunum mjög svo síðbúin svör frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra um styrk sjóðins til ýmissa brýnna framkvæmda á heimilunum þremur.  Oft hafa svörin komið í seinna fallinu en aldrei eins og nú.  Þetta eru framkvæmdir yfirstandandi árs sem við fáum svo sein svör við.  Skýring; það var skipuð ný stjórn í byrjun árs vegna ráðherraskipta og sú stjórn var ekkert mikið að funda.  Hvers vegna veit ég ekki og skiptir engu máli.  Aðalatriði er að svörin eru komin hús og 13 af 14 voru jákvæð. 

Þar ber hæst að nefna tvö verkefni.  Breyting á hluta af annarri hæð í austurhúsinu á Grund á þá leið að þar verða til fimm einbýli með baðherbergi í stað núverandi sex rýma sem ekki eru með sér baðherbergi.  Þetta næst með því að taka norðurhluta borðstofunnar á annarri hæðinni og koma þar fyrir tveimur eins manns herbergjum, hvort með sitt baðherbergið.  Þetta eru hænuskref í rétta átt, það er að það verði hægt að bjóða ÖLLUM heimilismönnum Grundar, og Grundarheimilanna reyndar allra, einbýli með sér baðherbergi.  Forsenda fyrir því að ljúka þessum breytingum á næstu árum er að ríkið greiði sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem Grundarheimilin við Hringbraut og í Hveragerði útvega ríkinu til reksturs hjúkrunarheimila, lögbundinnar þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á.  Meira um húsaleiguna síðar.

Hitt stóra verkefnið, sem er alveg risastórt, er bygging veitingaskála í suðurgarði Grundar, í u-inu.  Þangað verður innangengt úr núverandi matsal starfsmanna á jarðhæð.  Skálinn verður í vesturhluta garðsins með útisvæði austan megin, setbekki, leiktæki, gróður og fallegt umhverfi.  Þar verður hægt að kaupa sér eitthvað létt í hádeginu, kaffiveitingar og svo bjór eða léttvínsglas seinni part dags.  Þessi aðstaða verður fyrsta flokks og tilvalið fyrir heimilismenn að bjóða aðstandendum sínum upp á kaffi og kruðerí eða einn ískaldan öl.  Þessar framkvæmdir fara af stað næsta vor og lýkur vonandi seinni hluta næsta árs.

Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og heilbrigðisráðherra kærlega fyrir framlögin góðu til að bæta aðstöðu heimilismanna okkar.  Þessi ákvörðun um framlögin er þeim til mikils sóma.

 

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna