Konudagurinn

Konudagurinn er haldinn hátíðlegur næsta sunnudag.  Fer ekki í tilurð dagsins en hann er finnst mér svona á pari við bóndadaginn sem er fyrsti dagur í þorra.  Á konudegi gefa flestir/sumir karlmenn konum sínum blóm, konfekt eða eitthvað annað fallegt og gott.

Það hefur verið allskonar hjá mér í þessu í gegnum árin.  Einstaka sinnum blóm, en þó oftar einhver falleg og áhugaverð hönnunarblöð sem minn betri helmingur kann mjög vel að meta.  Sjaldan ef nokkkurn tíma konfekt.

Við á Grundarheimilunum ákváðum að gefa öllum heimiliskonum heimilanna þriggja rós í tilefni dagsins, var gert á Grund í fyrra og er nú yfirfært á heimilin þrjú.  Fallegt.

Valentínusardagurinn er svo annar svona konudagur.  Haldinn hátíðlegur 14. febrúar ár hvert og er sagður dagur elskenda.  Algjört bull finnst mér, amerískur siður sem að seljendur blóma, konfekts og allskonar svona konuvara hafa innleitt og auglýsa grimmt hitt og þetta til að gefa elskunni á þessum degi elskenda.  Hef aldrei, og mun aldrei, taka þátt í því rugli.

En hugsum hlýtt til okkar ástkvenna og gleðjum þær með einhverjum fallegum hætti á sunnudaginn kemur 😊