Heimiliskonan Birna Björgvinsdóttir og Gísli Páll Pálsson forstjóri í Mörk tóku við viðurkenningarskjalinu hjá Rannveigu Guðnadóttur verkefnisstjóra Eden Alternative á Íslandi.

Mörk hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut 66 hefur nú hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem Eden heimili og er það fyrsta heimilið sunnan heiða  sem hlýtur þessa alþjóðlegu viðurkenningu. Vottunin gildir í tvö ár í senn og  þurfti heimilið að standast ítarlega úttekt á ýmsum þáttum starfseminnar til að fá þennan gæðastimpil.

Eden Alternative er alþjóðleg hugmyndafræði sem hjúkrunarheimili víða um heim vinna eftir. Þegar heimilið var tekið í notkun árið 2010 var ákveðið að Mörk skyldi rekið í anda Eden hugmyndafræðinnar og hefur innleiðingarferlið  staðið yfir síðan með markvissri þjálfun og fræðslu. Reglulega er starfsfólki boðið upp á  Eden fræðslu og námskeið til að styrkja sig í leik og starfi og  kunna skil á því í hverju það felst að vinna í anda hugmyndafræðinnar.

Starfsfólk leitast við að styrkja sjálfræði heimilismanna og vinna gegn einmanaleika, vanmáttarkennd og leiða.

Í Mörk eru ellefu  vel út búin heimili þar sem tíu til ellefu heimilismenn búa saman á hverju þeirra.

Heimilið er gætt lífi með reglulegum heimsóknum barna og ungmenna, gæludýr eru velkomin í Mörk og  sjálfboðaliðar og velunnarar koma í heimsókn reglulega og stytta fólki stundir með ýmsum hætti.   Mikið er lagt upp úr góðu og þéttu samstarfi við aðstandendur og þeir eru ávallt velkomnir í Mörk.